Skip to main content

Hvammstangi

Önnur ferð félagsins þetta sumarið var farin helgina 11. - 13. júní á Hvammstanga. Strax á fimmtudagskvöldið voru komnir nokkrir vagnar á svæðið. Veðrið var leiðinlegt rigning og rok. Á föstudeginum var sama leiðinlega veðrið og rokið herti á sér. Við sem vorum komin áttum von á miklum forföllum vegna veðurs en viti menn, um kvöldið höfðu skilað sér 25 vagnar. 

Formaður og ritari félagsins buðu uppá heita súpu og brauð og allir tóku vel til matar síns, líka útlendingarnir á tjaldsvæðinu, sem þáðu súpuboðið með þökkum. 

Á laugardaginn vöknuðu allir í glaða sólskini en ekki var nú lofthitinn mikill, 7° gráður. Eftir hádegi var boðið uppá rútferð í boði Eðvalds (Valla) niður í kaupstaðinn og litið á Selasetrið, Bardúsu og til Gæranna, þar sem ýmsir gerðu góð kaup í skeiðum og kaffivélum. Ekki má gleyma að nokkrir skruppu einnig í Kaupfélagið. Bardúsa 1

Eftir kaffi pásu á tjaldsvæðinu var rölt um Kirkjuhvamminn, kirkjan skoðuð og Gunnar Sig sagði frá henni og sögu staðarins. Gamla myllan var tekin út og Bangsastaðir skoðaðir með leiðsögn Valla.

Selasetur

Eftir grill um kvöldið kom Valli aftur með rútuna og farið var í Félagsheimili staðarins þar sem félagsmenn áttu saman stund við lyftingar.  glens og gaman.  

Kvöldvaka

Á sunnudagsmorgun kl. 11.00 var ferðinni slitið og allir fóru að gera sig ferðaklára.  Aftur var farið að rigna en rigning, slydda, snjór, sólskin voru sýnishorn af veðri, sem við fengum á Hvammstanga um helgina. Það eyðilagði þó ekki góða samveru og vináttu helgarinnar.